Fræðsluvefur um áhrif kannabis á líkama

Kannabis og geðrof

Á síðustu áratugum hafa vísbendingar farið vaxandi um að kannabisreykingar ykju hættu á geðrofi (psychosis) sem gæti þróast áfram í geðklofa hjá hluta slíkra einstaklinga. Árið 1987 birtist loks umfangsmikil rannsókn sem gerð var á hermönnum í Svíþjóð til að rannsaka hvort slík tengsl væru til staðar1. Í rannsókninni var aðferðum faraldsfræðinnar beitt til að kanna tengsl kannabisnotkunar og geðklofa í fjölmennu þýði. Niðurstöður hennar mörkuðu viss tímamót í þekkingarleit á þessu sviði. Rannsóknin sýndi að endurtekin neysla kannabisefna virðist auka hættu á geðrofi og í kjölfarið hættu á alvarlegum geðrofssjúkdómi eins og geðklofa hjá ungum karlmönnum. Á síðasta áratug hafa síðan verið birtar margar rannsóknir í kjölfarið sem skýra tengsl kannabis og geðrofs.

Þegar niðurstöður þeirra eru teknar saman styðja þær ótvírætt að notkun kannabis er sjálfstæður áhættuþáttur fyrir geðrof og að öllum líkindum einnig fyrir þróun langvinnra geðrofssjúkdóma eins og geðklofa1-11. Um skammtaháð samband er að ræða þar sem áhættan eykst með tíðari notkun. Einnig sýna rannsóknir að notkun kannabis á unglingsaldri hefur sterkari tengsl við geðrof en notkun sem hefst á fullorðinsárum12-14. Safngreining Large og félaga sýndi jafnframt að aldur við fyrsta geðrof var 2,7 árum fyrr hjá þeim sem notuðu kannabis en þeim sem fengu geðrof og höfðu ekki notað kannabis.

Enn leikur þó vafi á hvernig kannabis veldur geðrofi. Margt bendir til þess að kannabisnotkun á unglingsaldri hafi víðtæk áhrif á vitsmunaþroska og geti meðal annars valdið lakara minni og einbeitingaskorti15, 16. Því er líklegt að miðtaugakerfi á þessum aldri sé viðkvæmara fyrir eitrunaráhrifum sem skýri sterk tengsl kannabisnotkunar unglinga og þróunar geðrofssjúkdóma. Nokkrar rannsóknir hafa sýnt fram á að kannabis auki framleiðslu dópamíns í ákveðnum brautum heilans. Ein kenningin er því sú að kannabis valdi geðrofi með aukinni dópamín framleiðslu17. Einnig geta félagsleg áhrif verið hluti af skýringunni þar sem fólk sem hefur notkun kannabis á unglingsaldri er líklegra til að einangrast fyrr en hinir sem kann að skipta máli í þróun geðrofssjúkdóma. Frekari rannsókna er þó þörf til að skýra þetta samband enda eru geðrofssjúkdómar lengi í þróun og vandasamt að mæla skýribreytu og svarbreytu af nákvæmni og þó sérstaklega flókið samhengið á milli þeirra18.

Það er þannig ljóst að endurtekin (>10 skipti) notkun kannabisefna hjá unglingum eða ungum fullorðnum er sjálfstæður áhættuþáttur fyrir geðrofi eða þróun geðklofa snemma á fullorðins árum. Áhætta 18-20 ára einstaklinga á þróun geðklofa eykst frá 30% upp í 300% á 30 árum, mest framan af þó. Hve mikil aukning áhættu verður ræðst mest af tíðni notkunar efnisins fyrir tvítugt. Mikilvægt er að auka þekkingu almennings á alvarlegum afleiðingum kannabisnotkunar og þeirri staðreynd að ekki er hægt að spá fyrir um hverjir veikist af geðrofi til skemmri tíma og hverjir til lengri tíma í hópi þeirra sem nota efnið reglulega.

 

 

 

 1. Andreasson S, Allebeck P, Engstrom A, Rydberg U. Cannabis and schizophrenia. A longitudinal study of Swedish conscripts. Lancet. 1987; 2(8574): 1483-6.
 2. Andreasson S, Allebeck P, Rydberg U. Schizophrenia in users and nonusers of cannabis. A longitudinal study in Stockholm County. Acta psychiatrica Scandinavica. 1989; 79(5): 505-10.
 3. Tien AY, Anthony JC. Epidemiological analysis of alcohol and drug use as risk factors for psychotic experiences. The Journal of nervous and mental disease. 1990; 178(8): 473-80.
 4. Zammit S, Allebeck P, Andreasson S, Lundberg I, Lewis G. Self reported cannabis use as a risk factor for schizophrenia in Swedish conscripts of 1969: historical cohort study. BMJ. 2002; 325(7374): 1199.
 5. van Os J, Bak M, Hanssen M, Bijl RV, de Graaf R, Verdoux H. Cannabis use and psychosis: a longitudinal population-based study. American journal of epidemiology. 2002; 156(4): 319-27.
 6. Fergusson DM, Horwood LJ, Ridder EM. Tests of causal linkages between cannabis use and psychotic symptoms. Addiction. 2005; 100(3): 354-66.
 7. Fergusson DM, Horwood LJ, Swain-Campbell NR. Cannabis dependence and psychotic symptoms in young people. Psychological medicine. 2003; 33(1): 15-21.
 8. Henquet C, Krabbendam L, Spauwen J, Kaplan C, Lieb R, Wittchen HU, et al. Prospective cohort study of cannabis use, predisposition for psychosis, and psychotic symptoms in young people. BMJ. 2005; 330(7481): 11.
 9. McGrath J, Welham J, Scott J, Varghese D, Degenhardt L, Hayatbakhsh MR, et al. Association between cannabis use and psychosis-related outcomes using sibling pair analysis in a cohort of young adults. Archives of general psychiatry. 2010; 67(5): 440-7.
 10. Kuepper R, van Os J, Lieb R, Wittchen HU, Hofler M, Henquet C. Continued cannabis use and risk of incidence and persistence of psychotic symptoms: 10 year follow-up cohort study. BMJ. 2011; 342: d738.
 11. Manrique-Garcia E, Zammit S, Dalman C, Hemmingsson T, Andreasson S, Allebeck P. Cannabis, schizophrenia and other non-affective psychoses: 35 years of follow-up of a population-based cohort. Psychological medicine. 2012; 42(6): 1321-8.
 12. Large M, Sharma S, Compton MT, Slade T, Nielssen O. Cannabis Use and Earlier Onset of Psychosis. Archives of general psychiatry. 2011; 68(6): 555-61.
 13. Donoghue K, Doody GA, Murray RM, Jones PB, Morgan C, Dazzan P, et al. Cannabis use, gender and age of onset of schizophrenia: Data from the AESOP study. Psychiat Res. 2014; 215(3): 528-32.
 14. Casadio P, Fernandes C, Murray RM, Di Forti M. Cannabis use in young people: The risk for schizophrenia. Neurosci Biobehav R. 2011; 35(8): 1779-87.
 15. Meier MH, Caspi A, Ambler A, Harrington H, Houts R, Keefe RSE, et al. Persistent cannabis users show neuropsychological decline from childhood to midlife. P Natl Acad Sci USA. 2012; 109(40): E2657-E64.
 16. Solowij N, Stephens RS, Roffman RA, Babor T, Kadden R, Miller M, et al. Cognitive functioning of long-term heavy cannabis users seeking treatment. Jama-J Am Med Assoc. 2002; 287(9): 1123-31.
 17. Murray RM, Morrison PD, Henquet C, Di Forti M. Science and society - Cannabis, the mind and society: the hash realities. Nat Rev Neurosci. 2007; 8(11): 885-95.
 18. Jonsson AJ, Birgisdottir H, Sigurdsson E. Does the use of cannabis increase the risk for psychosis and the development of schizophrenia? Laeknabladid. 2014; 100(9): 443-51.